Tilgangur Round Table
1. Að sameina unga menn úr mismunandi starfsgreinum til að öðlast betri skilning á þjóðfélaginu og stöðu einstaklingsins innan þess.
2. Að lifa eftir einkunnarorðunum í vináttu og samvinnu.
3. Að auka alþjóða skilning og vináttu með aðild að Round table International.
Hvað er Round Table
Félagsskapur ungra manna á aldrinum 20 – 45 ára.
Félagar eru úr hinum ýmsu starfsséttum þjóðfélagsins.
Í hverjum klúbbi eru hámark 30 félagar, þ.e. fámennir klúbbar þar sem hverjum og einum er ætlað að taka virkan þátt í mótun félagsstarfsins.
Hver klúbbur starfar mjög sjálfstætt og er fundarform frjálslegt.
Félagar eru tengdir RTÍ með klúbbi sínum en allir klúbbarnir eiga aðild að fulltrúaráði, sem kýs Landsstjórn.
RTÍ er aðili að Round Table International sem eru alþjóðleg samtök Round Table klúbba í Evrópu, Bandaríkjum N-Ameríku, Afríku og Asíu.
RT er og verður karlaklúbbur, en í starfi okkar höfum við jafnan lagt ríka áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar.
Sögulegt yfirlit
Fyrsti Round Table klúbburinn var stofnaður þann 14. Mars 1927 í Norwick í Englandi. RT 1 Reykjavík var stofnaður af Mats Wibe Lund og félögum þann 5. September 1970. Mats hafði kynnst RT-hreyfingunni í Noregi.
Fyrsta Landsstjórn RTÍ var kosin 28. maí 1975 eða um leið og RT3, Reykjavík var vígður.
Round Table International var stofnað þann 16. September 1991 í Carinthia, Austurríki.
Árið 2004 eru 13 klúbbar starfandi á Íslandi.
Fulltrúaráð
Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í öllum málum hreyfingarinnar, í samræmi við lög RTÍ.
Fulltrúaráð er skipað forseta RTÍ, sem er líka formaður fulltrúaráðs, formönnum og varaformönnum hinna einstöku klúbba.
Fulltrúaráð heldur 3 fundi á hverju starfsári auk aðalfundarog er umsjón þeirra í höndum klúbbanna til skiptis.
Öllum félögum RT klúbba er frjálst að mæta á fulltrúaráðsfundi og hafa þar tillögurétt og málfrelsi.
Landsstjórn
Landsstjórn er framkvæmdastjórn RTÍ, sér um daglegan rekstur og er fulltrúi hreyfingarinnar innanlands sem utan.
Landsstjórn er skipuð fjórum mönnum; Forseta, varaforseta, gjaldkera og IRO fulltrúa.
Starfstími landsstjórnar er eitt ár utan gjaldkera, sem kjósa má til tveggja ára í senn.
Allir félagar RTÍ geta boðið sig fram til landsstjórnar eftir 3 ár í hreyfingunni.
Almennir fundir
Fundir eru haldnir aðra hverja viku yfir vetrarmánuðina.
Algengasti fundartíminn er frá kl. 19 eða 20 til kl. 22-23 Fundarformið sjálft og dagskrá mótar hver klúbbur að mestu sjálfur, en venjur hafa skapast um eftirfarandi atriði:
a) Kynningarhringur. Ef gestir aða nýjir félagar koma á klúbbfundi kynnir hver félagi sig með nafni og segir frá aldri, starfi og fjölskylduformi. Venjulega endar kynningarhringurinn á að formaður kynnir gestinn fyrir félögum sínum.
b) 3 mínútur. Í byrjun hvers fundar er einum félaga ætlað að kynna í stuttu máli (3mín) málefni sem honum er hugleikið. Á eftir gefst öðrum kostur á að leggja orð í belg – með eða á móti.
c) Fyrirlesarar. Að jafnaði eru fengnir 4 – 8 fyrirlesarar yfir veturinn til að fjall um hin ólíklegustu málefni. Almennt er gert ráð fyrir að fyrirlesarinn gefi stutt yfirlit yfir málefnið en svari síðan fyrirspurnum. Margir slíkir fundir hafa orðið eftirminnilegir, vegna þess að oft skapast mjög hreinskilin og lífleg umræða í svo fámennum og samstilltum klúbbum. Fullyrða má að oft eru slíkir fundir ekki síður góð upplifun fyrir viðkomandi fyrirlesara.
d) Starfsgreinaerindi. Hverjum félaga er ætlað að kynna starf sitt á einum fundi. Slíkir fundir eru oft haldnir á vinnustað viðkomandi félaga.
Mætingar á fundi
Þar sem klúbbarnir eru fámennir er lögð rík áhersla á góða fundarsókn. Þessvegna er mætingaskylda á alla fundi klúbbs samkvæmt útgefinni dagskrá. Tilkynna skal forföll fyrir fund og er hægt að fá fullgilda mætingu með því að koma í staðinn á fund hjá öðrum klúbbi.
Félagsgjöld
Félagsgjöld eru við það miðuð að þau nægi til greiðslu kostnaðar vegna funda þ.e. veitinga, húsnæðis, skemmtanahalds og ferða stjórnar á fundi, auk framlags til landsstjórnar. þar sem veitingar eru með ýmsu móti hjá klúbbunum eru félagsgjöld misjöfn milli þeirra.
Fjáröflun
Klúbbarnir eru mjög misjafnlega vel stæðir fjárhagslega, enda í valdi hvers klúbbs um sig hvaða fjáröflun er stunduð, ef þá nokkur. Ef klúbbarnir afla fjár í góðgerðarskyni hefur sú venja skapast, að verja hagnaði til ákveðins málefnis – án auglýsinga.
Útgáfustarfsemi
Fundargerðum klúbba er haldið til haga, þær birtar á vefsvæðum klúbba og í ársskýrslu klúbba sem afhent er landsstjórn á aðalfundi.
Landsstjórn gefur út fréttablaðið aRThur, minnst tvisvar á ári. Heimilt er að birta aRThur einungis sem vefrit. Hverju sinni sér einn klúbbur um efnisöflun í blaðið.
Árlega er gefið út nýtt félagatal með dagskrá allra klúbba, lögum og siðareglum.
Nýir félagar
Öllum félögum í RTÍ er frjálst að gera tillögu að nýjum félaga til inngöngu í hvaða starfandi RT klúbb svo framarlega sem félagafjöldi hans er undir 30 félögum. Allir félagar viðkomandi klúbbs þurfa að samþykkja inngöngu hins nýja félaga og er kosið um inntöku hans í leynilegri kosningu. Í slíkri kosningu eru félagar minntir á tilgang Round Table og að vera jákvæðir í garð hins væntanlega félaga þegar atkvæði er greitt.
Sameiginlegt starf
Samkvæmislíf er öflugt og þykja RT félagar kunna að skemmta sér, þegar þeir koma saman. Bæði er um að ræða sameiginlegar skemmtanir klúbbanna og aðskildar á vegum einstakra klúbba, því klúbbarnir standa sjálfir fyrir öflugu samkvæmislífi.
Árshátíð RTÍ er haldin í tengslum við aðalfund hreyfingarinnar að vori. Þá eru, í tengslum við stærri sameiginlegar skemmtanir, yfirleitt haldin heimboð, þar sem reynt er að blanda saman fólki úr mismunandi klúbbum, til að auka tengsl félaganna.
Sumarstarf er nokkuð fjölbreytt og eru fjölskylduferðir fastur liður í starfi flestra klúbba, árleg fjölskyldu útilega í Öxarfjörð í umsjón klúbbanna á norður og austurlandi er orðinn fastur liður í sumarstarfinu, eins golfmót í Reykjavík.
Heimagisting
Í tengslum við fulltrúaráðsfundi og aðrar samkomur innan RT, er áhersla lögð á heimagistingu þar sem aðkomnir RT félagar gista hjá heimamönnum. Þessi háttur nýtur vaxandi vinsælda og styrkir til muna samskipti manna í milli, auk þess að vera góð leið til að upplifa tilgang hreyfingarinnar.
Erlend samskipti
Í tengslum við aðalfund fulltrúaráðsins koma oft erlendir RT félagar og þá eru haldin heimboð, þar sem reynt er að ná saman fólki úr hinum ýmsu klúbbum.
Íslenskum RT félögum standa jafnan til boða fjölmörg tækifæri til ferðalaga erlendis, bæði á samnúmeramót, fundi, s.s. EMTM, RTInt, WOCO, IRO og NTM, og í sérstakar boðsferðir, t.d. masstour, skútusiglingar, golfferðir, skíðaferðir ofl. Upplýsingar um slíkar ferðir er að fá hjá IRO fulltrúa hverju sinni. þá sem farið hafa slíkar ferðir þarf ekki að sannfæra frekar um ágæti RT hreyfingarinnar.
Klúbbarnir sjálfir styrkja í sumum tilvikum menn til slíkra ferða, en auk þess er innan RTÍ, ferðasjóður Mats, sem árlega styrkir menn til ferðalaga.
Round Table klúbbar á Íslandi
Klúbbur Round Table 1 – Reykjavík Round Table 2 – Reykjavík Round Table 3 – Reykjavík Round Table 4 – Húsavík Round Table 5 – Akureyri Round Table 6 – Reykjavík Round Table 7 – Akureyri Round Table 8 – Reykjavík Round Table 9 – Egilsstaðir Round Table 10 – Keflavík Round Table 11 – Vestm.eyj. Round Table 12 – Reykjavík Round Table 14 – Selfossi Round Table 15 – Borgarnesi Round Table 16 – Fjarðarb. |
Stofndagur 5. september 1970 31. maí 1974 28. maí 1975 29. apríl 1978 29. apríl 1978 10. maí 1980 16. október 1982 30. apríl 1983 30. apríl 1988 26. apríl 1994 25. apríl 1996 3. maí 2003 3. maí 2003 9.sept 2007 |
EMTM: European and Mediteranian Tablers Meeting (árlegur fundur RT í Evrópu)
GOLFFERÐ: Árlegt golfmót. Menn leita að litlum bolta, finna hann og slá honum svo frá sér aftur og byrja að leita á ný. Ómissandi þáttur í starfsemi Round Table!
IRO: International Relations Officer (erlend samskipti)
MASSTOUR: Tiltekin landshreyfing býður félögum og fjölskyldum þeirra í kynnisferð um land sitt, oft 2 – 3 vikur, þar sem RT félagar viðkomandi lands sjá um gistingu og skipulag.
NTM: Nordic Tablers Meeting, fundur landsstjórna og almennra RT-félaga á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.
RTInt: Round Table International, alþjóðasamtök RT klúbba með um 43,000 félaga í um 3.000 RT klúbbum.
RTÍ: Round Table Ísland, um 200 félagar
SAMNÚMERAMÓT: Mót allra klúbba í Evrópu er hafa sama númer s.s. RT5
SKÍÐAFERÐ: Árlegt skíðamót. Oft á snjó, niður brekkur á sleipum spítum sem bundnar eru á sitthvorn fótinn
SKÚTUSIGLINGAR: Sjó eða vatnaferðir á segskútum
WOCO: World Council of Service Clubs. Alþjóðasamtökin WOCO voru stofnuð 8 apríl 1945 í Chicago og samanstanda af 4 alþjóðasamtökum með um 52.000 félögum í um 3.718 klúbbum, sambærilegum og RT.