Fundur 554

Fyrirtækjaheimsókn. Njáll, Davíð og Siggi Óli

Fundinn sátu: Arnar, Birkir, Davíð, Elvar Örn, Guðmundur, Helgi, Hjálmar, Jón Ísl, Konráð, Njáll, Óskar, Óttar, Páll, Þórólfur.

Gestur: Ívar

Fórum í heimsókn til Norðurorku. Þar tók Stefán á móti okkur og kynnti fyrir okkur starfsemina og hlutverk Norðurorku. Margt áhugavert kom þar í ljós.

Fórum svo í Grenið og fengum dýrindis veitingar en ekkert gos, siðameistari var ekki ánægður með það. Arnar var tekinn inn í klúbbinn og gekk hann hring og tók í spaðann á okkur öllum. Sömuleiðis var Guðmundur H. tekinn inn.

Útbreiðslunefnd hefur ekki haldið fund enn að sögn Óttars formanns hennar. Helgi talaði um styrki og hamraði á okkur að skila inn þeim auglýsingum sem voru komnar inn og reyna að fá fleiri.

Tókum kynningarhring og Njáll fór yfir það hvað RT gengur útá. Þetta eru þrjú þrep, innan klúbbsins, innanlands starfið og svo erlent. Hann mælti sérstaklega með því erlenda.

Birkir gjaldk. minnti menn á að greiða árgjaldið og sömuleiðis á pinna sem fást í sjoppunni. Elvar talaði um formannspartýið og var það fært yfir á laugardag í stað föstudag. Lofaði svaka partý. Elvar minntist sömuleiðis á næsta fulltrúaráðsfund sem haldinn verður af klúbbunum frá Selfossi 

Siðameistari fór að lokum yfir fundinn og sektir.

Fundur 553

Fundinn sátu: Arnar, Davíð, Elvar Örn, Eyjólfur, Helgi, Hjálmar, Jón Ísl, Konráð, Njáll, Óskar, Óttar, Páll, Sigurður, Þórólfur.

Gestir: Erlingur RT7, Elvar Árni.

Þetta var frekar óformlegur fundur. Hittumst fyrir utan Grenið og fórum svo í hús rétt fyrir utan bæinn sem var á vegum Elvars Arnar. Þar var grillað og rætt saman um allt og ekkert.

Fundur 552

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar.

Fundinn sátu: Birkir, Björn, Elvar, Helgi, Hjalti, Hjálmar, Jóhann, Jón, Konráð, Kristján, Njáll, Óskar, Óttar, Páll, Sigurður og Þórólfur. Guðmundur H. Gústavsson var gestur.

Við byrjuðum á kynningarhring. Því næst fengu allir íslenskt brennivín í staup til að skála fyrir nýliðanum, Sigga Óla. En fyrst þurfti hann að segja hvað allir hétu. Ef hann klikkaði á nafni fékk hann staupið hjá viðkomandi. Hann klikkaði á fimm. Svo fékk hann önnur fimm frá þeim sem ekki drukku sín. Einnig fékk hann mjög stórt glas af bjór (5-6 litlir bjórar) til að drekka með öllum staupunum.

Óskar fór svo yfir það helsta sem gerðist á B-fundinum. Þetta var náttúrulega svaka ferð og mjög skemmtileg. Á meðan við borðuðum þessa líka góðu Greifa pizzur (allir nema Siggi því hann var orðinn vel hífaður) var árshátíðin rædd og fengum við nokkrar góðar sögur þaðan. Hjalli kynnti fyrir okkur golfmót hjá RT2 og athugaði áhuga okkar á að vera með. Líka frá golfmóti RT9 í júlí og sömuleiðis hvort við ættum að hafa golfmót samhliða útilegunni. Hjalli talaði líka um trjálund RT og að vinna við hann færi að hefjast og óskaði eftir því að við myndum sameinast í bíla og aðstoða.

Næst kynnti Elvar fundaplanið fyrir næsta vetur. Hann talaði um útileguna sem verður helgina 17.- 19. júní og vill að við auglýsum hana vel og tímalega fyrir öðrum RT klúbbum. Samþykkt var tillaga um að hafa maka með á næsta A-fund. Við leggjum mikla áherslu á Færeyjar fundin sem verður í febrúar og viljum að sem flestir mæti á hann og sást það á því hve miklum pening var úthlutað á hann. Ekki verða fundir sem eru á öðrum dögum en mánudögum númeraðir. Svo var Kýpur líka nefnd sérstaklega og fara tveir frá okkur þangað. Við ætlum að sækja um númeramót fyrir árið 2013 og þurfum við að bretta upp ermar og hafa kynningarefni klárt. Ræddar voru nokkrar hugmyndir í sambandi við það og var ákveðið að halda sérstakan fund fyrir það verkefni. Óskar kynnti fyrir okkur góðgerðaklúbb sem stofnaður var á síðasta aðalfundi RT. Hann útskýrði svo fyrir okkur kubbinn sem hann keypti og leggur til að verði notaður sem fánastöng á næstu fulltrúaráðsfundum.

Konni fór svo yfir syndir siðameistara frá B-fundi. Þeir sem ekki komu með sínar refsingar fengu meiri refsingu. Eyjólfur þarf að koma með 5 president. Njáll þarf að sjá um gos á alla fundi fyrir áramót og Óskar eftir áramót því hann gerði ekki allar armbeygjurnar sínar. Jón Ævar braut líka sína refsingu og verður auka refsing ákveðin síðar.

Að lokum voru 3 mínútur og umræðan var „Hvað á að gera í sumar?“ Þar var útilega og að ferðast innanlands í uppáhaldi. Nýliðinn hann Siggi Óli lifði fundinn af þó það hafi verið tvísýnt á köflum.

Fundarboð – fundur nr. 553

Sælir félagar

Nú fer í gang starfsemi vetrar 2011-2012 hjá Roundtable 5.

Næsta mánudag (5. september) er fundur nr. 553 með yfirskriftina „Haustferð“ í umsjón stjórnar RT5.

Við munum hittast kl.19:00 í greninu (tímanlega) og gerum ráð fyrir að fara þaðan c.a. 19:15 á einkabílum í um 14 mínútna akstur. Söfnum saman í bíla og munum að þeir sem fá sér bjór eiga ekki að vera í bílstjórasætinu. Stefnum við á að borða saman í þessari ferð um kl 20:00. Ýmis mál verða tekin upp og verður frekari dagskrá send í kvöld þar sem stjórn RT5 mun hittast í kvöld og fara yfir vetrarstarfið (með kannski 1 öl við hönd).

Ég geri ekki ráð fyrir að senda sms á alla fyrir hvern fund enda eru félagsmenn ekki 8 ára og ef menn eru minnislausir þá er vert að benda á remainder í símanum ykkar. Mér þætti vænt um að menn meldi sig hér svo við vitum þáttöku m.t.t. matarinnkaupa.

Sjáumst hressir elskurnar mínar.

Flotti formaðurinn.

Fundur nr. 552 – 1. fundur nýrrar stjórnar

Sælir kæru félagar
 
Ég boða hér með til fundar nr. 552, mánudaginn 2. maí 2011.  Fundurinn hefur yfirskriftina „fyrsti fundur nýrrar stjórnar“ og er hann jafnframt sá síðasti fyrir sumarfrí.
Biðst afsökunar á hve seint boðin berast en það hefur verið mjög óljóst hvort fráfarandi formaður léti af störfum.
 Enn hafa lyklar að Greni (klúbbhúsi) sem og taska formanns EKKI skilað sér til núverandi formanns og vona ég að hann geri okkur kleift að halda fundinn í kvöld :). Einnig vil ég nota tækifærið og benda núverandi vefstjóra á að nota tímann sem notaður hefur verið við að skrifa EKKI-fréttir að taka heldur til á heimasíðu klúbbsins.
 
Mæting er kl. 20:00 í RT-grenið og munum við snæða Pizzu eins og seinustu ár og er áætlað að fundur standi til kl. 22:30.
 
Hér í fylgiskjali má finna tillögu að rekstrar- og starfsáætlun fyrir árið 2011-2012. Vinsamlegast kynnið ykkur tillöguna og komið með athugasemdir i kvöld. Þess má geta að áætlunin verður ekki prentuð út að ósk eiginkonu Vefstjóra en verður í staðinn varpað upp á tjald, þannig er hægt að gera breytingar fyrir allra augum. Gera má ráð fyrir breytingum á dagsetningum funda á vegum RTÍ í kjölfar nýliðins Aðalfundar RTÍ.
 
Dagskrá:
Fundur settur
Inntaka nýliða
Matur (pizzuveisla)
Tillaga að starfs- og rekstraráætlun 2011-2012
B-fundur (samantekt)
Aðalfundur RTÍ (samantekt)
Færeyjar (ef tími gefst til)
Syndir siðameistara
3 mínútur
Önnur mál
Fundi slitið
 
Kveðja
Fomaðurinn